Um mig

Sólveig er fædd í Reykjavík árið 1995 og hóf fiðlunám þriggja ára gömul við Allegro Suzukitónlistarskólann undir handleiðslu Lilju Hjaltadóttur. Árið 2009 hóf hún nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og var kennari hennar þar Guðný Guðmundsdóttir.

Haustið 2014 hóf hún fiðlunám við Listaháskólann í Berlín þar sem hún lærði undir handleiðslu Eriku Geldsetzer. Hún lauk Bachelor of Music gráðu með hæstu einkunn, í byrjun árs 2019. Síðan í febrúar 2019 stundar hún meistaranám  við Listaháskólann í Zürich, í fiðlubekk Prof. Rudolf Koelman.

Hún hefur leikið einleiks- og kammertónlist á Íslandi, Þýskalandi, Sviss og komið fram á ýmsum hátíðum, þar á meðal Bodensee hátíðinni og Tónlistarhátíð unga fólksins, á tónleikaröðinni Tónleikar farfugla í Hannesarholti og á tónleikaröðinni Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni.

Hún hefur komið fram sem einleikari með hljómsveit á Íslandi, Sviss og á Ítalíu, þar á meðal leikið fiðlukonserta eftir Tchaikovsky og Sibelius og Introduction og Rondo Capriccioso eftir Saint-Saëns.

Nýverið kom hún fram sem einleikari með Das kleine Zürcher Ensemble, þar sem hún lék Zigeunerweisen eftir Sarasate á þrennum tónleikum í Zürich og nágrenni, og með strengjasveitinni ZHdK strings þar sem hún lék fiðlukonsert í a-moll eftir J. S. Bach á tónleikum í Winterthur. Einnig lék hún allar sex einleikssónötur fyrir fiðlu eftir Ysaÿe á sömu tónleikunum í Listaháskólanum í Zürich í júní 2019. Í Zürich sækir Sólveig einnig tíma í barokkfiðluleik hjá Moniku Baer, og kom hún fram í fyrsta skipti sem barokkfiðluleikari á hátíðinni Festival Alte Musik Zürich í september 2019.

Sólveig hefur verið meðlimur í Kammersveitinni Elju frá því að hún var stofnuð árið 2017, og komið reglulega fram með henni, og hefur m.a. leitt kammersinfóníur eftir Stravinsky og Schönberg.

Hún hefur hlotið námsstyrki frá Samfélagssjóði Valitor, Tónlistarsjóði Rótarý, Ingjaldssjóði, Minningarsjóði Jóns Stefánssonar, Stiftung Lyra og Fondation ZHdK.

Sólveig leikur á fiðlu frá Hans Jóhannsyni, sem var smíðuð árið 2011.